Við mæðgur lögðum undir okkur bílinn í dag og sendum fjölskylduföðurinn gangandi í vinnuna. Fórum svo á smá flakk eftir hádegið og byrjuðum á Pizza Hut í Smáralindinni þar sem mamman fékk sér pizzur af hlaðborðinu og dóttirin fékk ávaxtamauk. Báðar fóru saddar og sáttar út og svo hófumst við handa við útréttingar í Smáralindinni. Ragna Björk var ákaflega þolinmóð og góð í kerrunni í þennan klukkutíma sem við vorum að stússast og kvartaði t.d. ekki neitt meðan mamma hennar stóð í örugglega tíu mínútur í nammilandinu í Hagkaup og pikkaði út rauð Smarties og setti í poka. Nei, ég er ekki algjörlega búin að missa vitið, þrátt fyrir að vera pínu skrýtin eins og ég viðurkenndi í gær. Mig vantaði einfaldlega rauð Smarties til að skreyta afmæliskökur helgarinnar :) Held reyndar að ég hafi nú ekki náð nógu mörgum svo að það verður örugglega önnur ferð á morgun.
Eftir að hafa síðan einnig litið við í Föndru á Dalveginum fórum við í heimsókn til ömmu Bjarkar, afa Tedda og Kára. Svo kom Kristófer "frændi" líka í heimsókn þangað ásamt foreldrum sínum. Rögnu Björk leist nú bara vel á hann og vildi leika við hann, togaði pínu í peysuna hans og reyndi að éta annað stígvélið hans. Honum leist ekki alveg jafnvel á þessa áköfu ungu dömu og virtist hálfsmeykur. Og þó Ragna Björk sé sko ekki hrædd við að hitta nýja krakka, þá var hún ekki neitt sérstaklega brött þegar Teddi og Höddi reyndu að tala við hana. Þá var bara gott að kúra í hálsakoti ömmu sinnar og fela sig.
2 hafa lagt orð í belg