mynd
 
Ragna Björk


Fréttir

17. apr. 2010 | Stór systir

Mamman alls ekki að standa sig í að setja nýtt efni hingað inn...

En jæja, Ragna Björk er sum sé orðin stór systir - og við erum ekki frá því að hún hafi stækkað um einhverja sentimetra við að fá þennan flotta titil ;) Litla systirin, hún Freyja Sigrún, fæddist á annan í páskum, þann 5. apríl og Ragna Björk talar mikið um hvað hún sé sæt og góð og vill sífellt vera að klappa henni og knúsa.

Okkur finnst við alveg svakaleg rík að eiga tvær svona flottar stelpur :)

fsj_rbj1.jpg

Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!

22. mars 2010 | Nýjar myndir

Fullt af nýjum myndum af skvísunni komnar inn. Sjá nánar á myndasíðunni.

Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!

28. mars 2009 | Guðirnir á leikskólanum

Heyrt hef ég sögur af nemendum (og þá sérstaklega í allra yngstu bekkjum grunnskólans) sem standa í þeirri trú að kennarinn sé guð og orð hans séu lögmál (sem er auðvitað alveg hárrétt, a.m.k. að mínu mati ;) hahaha). Hins vegar vissi ég ekki að þetta syndróm teygði sig alla leið niður í 2 ára börn á leikskóla...

Ég hafði aldrei mátt fikta neitt í hárinu á dóttur minni og hvað þá að setja í það einhverjar greiðslur! Upp úr áramótum hef ég hins vegar oftast mátt setja í hana tíkó og var auðvitað himinlifandi yfir því, enda finnst mér hún ósköp krúttleg með tíkarspena :) Ég frétti svo að þetta væri víst "tíska" á deildinni hennar Rögnu Bjarkar og stelpurnar væru farnar að biðja um að hafa tíkó. Þar kom því líklega skýringin á því að ég mátti skyndilega fara að greiða barninu án þess að finnast ég vera að pynta hana.

Nú í vikunni voru birtar hópmyndir á heimasíðu leikskólans og ég sá að dóttir mín var þar með spennur í hárinu, en hafði ekki farið þannig að heiman. Mér fannst svaka gaman að sjá að hún hefði fengist til að vera með spennur (því hér heima hefur hún yfirleitt kvartað hástöfum ef ég kem með slíkt nálægt henni...) og var líka ánægð með þessa alúð sem kennararnir á deildinni væru að sýna krökkunum að greiða þeim og gera þau fín fyrir myndatökur :)

Í dag var leiðinni haldið í afmæli Daníels Snæs og Ragna Björk hafði ekki alveg þolinmæði í að láta setja í sig fallegt tíkó en fann ónotuðu spennurnar sínar í hárskrautspokanum og heimtaði skyndilega að fá að nota þær... Ég þakka leikskólakennurunum kærlega fyrir þennan part af uppeldinu - er strax farin að velta fyrir mér hvað ég geti fengið þær til að kenna Rögnu Björk næst... ;)

 

Uppfært 31. mars:

Í dag var daman m.a.s. með smá fasta fléttu á kollinum þegar pabbi hennar sótti hana á leikskólann. Ég dáist að þessum stórkostlegu kennurum á deildinni hennar, þær eru virkilega duglegar við að dúlla við krakkana :)


17. mars 2009 | Naflaslitsaðgerð

Það var stór dagur hjá Rögnu Björk dugnaðarforki í dag. Hún hefur verið með lítið naflaslit síðan hún var örfárra vikna gömul og læknirnn hafði mælt með því að það fengi að jafna sig sjálft. Þar sem skvísan er nú orðin 2 ára gömul og naflaslitið enn af sömu stærð (hvorki minna né stærra) þá var ákveðið að gera aðgerð til að loka gatinu.

Hún átti bókað kl. 13:20 í aðgerðina og átti að fasta í 6 tíma áður. Ég kveið aðgerðinni sem slíkri ekkert sérstaklega enda um mjög smávægilega aðgerð að ræða - en ég hugsaði til þess með hryllingi hvernig ég ætti að dreifa huga litla matargatsins allan morguninn og fram til kl. 13:20...! Hún vaknaði klukkan 7 og mátti þá fá tvær litlar smáskyrsdósir og síðan ekki söguna meir. Fyrst vorum við mæðgur bara að dóla okkur heima að horfa sjónvarpið, lesa og leira en fórum svo til mömmu um tíuleytið og við fórum allar saman á bókasafnið og náttúrufræðisafnið í Kópavogi.

Ég dáðist að því hvað Ragna Björk var dugleg, en þrátt fyrir klukkutíma seinkun á aðgerðinni sem byrjaði ekki fyrr en kl. hálfþrjú, þá var litli engillinn ekkert að kvarta. Tvisvar um morguninn, meðan við vorum enn hérna heima þá vildi hún fá eitthvað að borða en það var hægt að dreifa huga hennar með nýjum bókum af bókamarkaðinum (sem geymdar höfðu verið fyrir þetta tilefni...! ;)). Síðan var hún bara ánægð og glöð og dundaði sér heilmikið á læknabiðstofunni í þennan rúma klukkutíma sem við biðum. Ég held m.a.s. að amman og mamman hafi verið orðnar mun svangari en litla skottan, og vorum við þó búnar að ná að lauma í okkur hvor sinni pylsunni meðan Ragna Björk dottaði á leiðinni yfir í Glæsibæ!

Aðgerðin heppnaðist vel og svo er saumataka í næstu viku. Amma Björk ætlar svo að passa litla strumpinn á morgun og á fimmtudaginn býst læknirinn við að hægt verði að fara á leikskólann aftur. Sjáum til hvernig gengur :)