Litla stelpan okkar er nú formlega orðin stór stelpa, enda orðin leikskólastelpa :) Hún byrjaði í aðlöguninni á Arnarsmára fyrir rétt rúmum tveimur vikum, þann 6. október, og er nú orðin fullgild á deildinni sinni, sem heitir Engi. Þetta hefur allt gengið mjög vel, þrátt fyrir veikindi sem hún nældi sér í (jú jú, leikskólaveikindin strax byrjuð... ;)) og hún er sæl og glöð á leikskólanum enda elskar hún að vera með öðrum krökkum. Það er langt síðan hún fór að fara út að glugganum, horfa yfir að leikskólanum og segja "krakka, krakka" :)
Ég er svo svakalega spennt yfir þessum leikskólamálum að mér finnst eiginlega verst að geta ekki verið fluga á vegg og upplifað allt þetta skemmtilega leikskólalíf með henni. Það er líka eitthvað svo fyndin tilhugsun að 19 mánaða dóttir mín eigi sér eins konar leynilíf sem foreldrarnir vita lítið um. Þegar ég sótti hana í dag var hún t.d. með eitthvað blátt undir nöglunum sem ég er að giska á að sé leir eða málning og svo voru smá glimmerblettir á peysunni hennar. Kannski hún sé að föndra jólagjöf handa foreldrunum? ;) hohoho
Já, þetta er ótrúlega skemmtilegt allt saman :) Núna bíð ég bara spennt eftir föstudeginum þegar foreldrum er boðið að koma með krílunum í morgunmatinn. Það hittist nefnilega svo vel á að það er einmitt vetrarfrí í skólanum mínum svo að ég þarf ekki einu sinni hafa neitt samviskubit yfir að mæta á leikskólann. Hef eiginlega mestar áhyggjur af því að leikskólakennararnir þurfi að beita afli við að fleygja mér á dyr kl. 9 þegar morgunmatnum lýkur, því mig mun örugglega langa til að taka þátt í leikskólastarfinu fram eftir degi og fá að mála og leika með kubba og svoleiðis :)
2 hafa lagt orð í belg