Þegar Ragna Björk var aðeins klukkutíma gömul sá ég strax að hún væri alveg geysilega lík pabba sínum. Ljósmæðurnar í Hreiðrinu virtust sammála, því þær höfðu næstum allar orð á þessu þegar þær komu inn til að aðstoða okkur, hver í sínu lagi.
Það hefur ekki breyst mikið og við heyrum það iðulega hversu lík þau feðginin eru, og þá sérstaklega neðra andlitið. Ég segi stundum við Jóa að hann sé kominn með sinn persónulega "Mini-Me" og það getur verið bráðskondið að horfa á þau hlið við hlið. Mér finnst þetta einna mest áberandi þegar þau eru bæði sofandi, þá er stundum eins og ég sé umkringd af klónum... ;)
Ef einhver er hins vegar ekki enn sannfærður um að þau séu lík þá getur sá hinn sami varla efast eftir að skoða þessar myndir. Tengdamamma lánaði mér gömul myndaalbúm svo ég gæti skannað inn myndir af Jóa frá því hann var lítill. Þar var meðal annars þessi mynd en þarna sjást líkindin milli þeirra skýrt og greinilega.
Og ef við skoðum aðeins neðra andlitið þá sést þetta ennþá betur... :)
Svo er ekki nóg með að þau líti eins út, þau eru bæði allsvakalegar B-týpur - vilja brölta og bardúsa langt fram eftir nóttu og sofa síðan vel út á morgnana...
Já, ég verð víst bara að sætta mig við það að eiginmaðurinn virðist hafa komið sínum genum betur áfram en ég - þó við vonum reyndar bæði að Ragna Björk verði samt afar kvenleg útgáfa af pabba sínum fyrst hún ákvað að líkjast honum svona svakalega ;)
2 hafa lagt orð í belg