Ragna Björk er nú orðin 6 mánaða gömul og það hljómar hálfótrúlega að það sé virkilega komið hálft ár síðan hún kom í heiminn í mars síðastliðnum. Hún sem er svo nýfædd...!
Tja, reyndar þá hefur það nú ekki farið framhjá okkur að litla rófan okkar er að verða stór stelpa. Hún er nú farin að fá graut tvisvar á dag, er farin að smakka ávaxtamauk og stækkar og dafnar vel. Í síðustu viku byrjaði hún að sitja alveg sjálf og getur setið og dundað sér dágóða stund áður en jafnvægið gefur sig og hún veltur út á hlið. Við þorum samt lítið að láta hana sitja sjálfa á leikteppinu því það er ekki mjög þykkt og örugglega ekki þægilegt að skella með hausinn í gólfið. Bíðum með þá reynslu enn um sinn... Dótalandið (ferðarúmið sem notast sem leikgrind) kemur þar að góðum notum því þar er alveg öruggt að sitja ... og velta :)
Þeir eru líka liðnir dagarnir þar sem hægt var að sitja tímunum saman með dótturina framan á sér eins og hitapoka. Nú bröltir mín kona og hnoðast eins og hún eigi lífið að leysa. Ekkert fer framhjá henni og hún ætlar sér sko ekki að missa af neinu!
Til gamans þá setti ég saman tvær myndir af henni til að birta við þessa færslu - og jú, báðar myndirnar eru af henni! Seinni myndin er tekin í dag á 6 mánaða afmælinu en hin er tekin þegar hún var 11 daga gömul (og var enn svona skemmtilega kaffigul á litinn :) ). Eins og sjá má hefur daman breyst heilmikið - þó þessar breytingar hafi nú að mestu farið framhjá foreldrunum sem héldu í sakleysi sínu að þeir væru enn með nýfæddan hvítvoðung í höndunum... ;)
3 hafa lagt orð í belg