mynd
 
Ragna Björk


Stóra stelpan okkar

Það er ekki langt í að Ragna Björk verði alveg farin að ganga. Hún verður sífellt öruggari með hverjum klukkutímanum og trítlaði ein og óstudd yfir allt stofugólfið í dag án þess að detta. Helst langar hana til að hlaupa og gleymir sér þá stundum og rýkur af stað, en slíkur hamagangur endar nú með því að hún pomsar niður á rassinn. Ef við leiðum hana kemst hún þó merkilega hratt og skundar þá í gegnum íbúðina þvera og endilanga.

Einhverjir hafa kannski rekið upp stór augu við að skoða mars-myndirnar sem ég setti inn í dag. Þar er nefnilega mynd af dömunni þar sem hún situr fullklædd á bleikum koppi. Ég vil nú bara taka það skýrt fram, til að koma í veg fyrir allan misskilning, að það er sko ekki komið að því að venja barnið á kopp og við erum ekkert að missa okkur í uppeldinu ;) Ég einfaldlega rakst á þennan netta kopp í Rúmfatalagernum og fannst sniðugt að Ragna Björk fengi að leika með hann og kynnast honum pínu svo að seinna meir yrði kannski auðveldara að prófa að nota hann af alvöru. Við prófum kannski við tækifæri að láta hana setjast bleyjulaus en erum ekkert að stressast við að losna við bleyjurnar svona snemma ;)

Við ætluðum að fara með Rögnu Björk í myndatöku í dag hjá honum Hjalta sem tók bumbumyndirnar fyrir okkur í fyrra, en þurftum að fresta vegna þess að fyrirsætan er enn með helst til mikið hor í nös. Ætlum að reyna síðar, þegar meiri líkur eru á að fá fram góðar myndir.


Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
01.03.2008 21:11:28
Jiii hvað ég hlakka til að sjá göngugarpinn í næsta mömmuklúbb!! En það er ekki skrítið að allt "gamla" fólkið heldur að Bumbo stóllinn sé koppur. Ragna Björk gæti alveg setið þarna í bleikum Bumbo :)
Þetta lagði Margrét Arna í belginn