mynd
 
Ragna Björk


Nokkur orð

Þá er loksins komin ný mynd á forsíðuna. Kannski kominn tími til enda er myndin af stúlkunni með 17. júní-fánann búin að vera á forsíðunni í fjóran og hálfan mánuð. Mér fannst sú mynd bara svo falleg að hún fékk að standa aðeins lengur en fyrri myndir ;) Nýja myndin er tekin í dag, 1. nóvember, þegar við mæðgur fórum út að hjóla. Þessi mynd var eitthvað svo prakkaraleg og krúttleg að hún má til með að fara á forsíðuna :)

Annars er allt gott að frétta af skvísunni. Hún er reyndar svolítið að rumska á nóttunni undanfarið, en syfjaðir foreldrarnir vona innilega að það fari að lagast. Reyndar er svo til alltaf nóg að finna snuðin í rúminu og færa þau þar sem hún nær þeim, en það krefst þess jú að það þarf að fara fram úr þar sem hún er löngu komin í eigið herbergi. Vonandi er þetta bara mynstur sem hún hefur komið sér í eftir veikindin í október. Þó það sé ekki gott að hún taki upp mynstur sem þarf að setja púður í að lagfæra, þá er það skárra heldur en að hún sé enn með einhverja veikindavírusa að fela sig...

Svo hefur hún verið að auðvelda okkur lífið síðustu tvo mánuði með vatns-/ eða baðhræðslu... Í hvert sinn sem stendur til að baða hana verður hún alveg galin og hágrætur svo svakalega að það kæmi okkur ekki á óvart að lögreglan færi að banka upp á. Hún reynir hvað hún getur í skelfingu sinni að komast upp úr baðinu og harðneitar að setjast. Reyndar hefur gráturinn ekki verið alveg eins tryllingslegur undanfarið og í dag vannst smá sigur. Við höfum verið að leyfa henni að busla í litlu vaskafati til að reyna að venja hana við vatnið og það hefur alveg slegið í gegn og henni finnst það mjög gaman. Í dag færðum við svo hana og vaskafatið ofan baðvatnið í karinu og hún var sko ekki sátt við það og fór að gráta. Einhvern veginn náðum við svo með leiksýningu með handbrúðu að fá hana til að hlæja og eftir það virtist bara nokkuð gaman í baðinu. Ekki vildi hún samt setjast, en þetta voru miklar framfarir...! Við slepptum síðan hárþvottinum til að hafa þessa baðferð alla ánægjulega - enda grunar mig sterklega að þessi baðhræðsla hafi byrjað í kringum hárþvottinn. Henni finnst sko ekki gaman að fá vatnið framan í sig þegar hárið er þvegið, en rífur samt alltaf af sér sérstaka baðderið sem heldur andlitinu þurru og ég prófaði því að halda þurrum þvottapoka yfir augunum á henni við hárþvottinn og það var ekki vinsælt! Og ég held að þetta hafi kannski byrjað út frá því... o jæja, maður verður nú að vera mannlegur gera einhver mistök í barnauppeldinu... ;) hehe

Leikskólinn hins vegar gengur glimrandi vel. Hún grætur jú enn þegar hún er skilin eftir en það endist stutt og hún er kát og glöð að leika við krakkana. Eftir helgar virðist hún líka orðin hálfleið á þessum einhæfu foreldrum sínum og er eiginlega hálffegin að komast á leikskólann!


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
02.11.2008 23:12:46
Elskan litla hefur bara erft þessa baðfóbíu frá mömmu sinni. Það var alltaf búist við barnaverndarnefnd eftir hvert bað.
Þetta eldist sem betur fer af, en það er hreint ekki skemmtilegt að láta nágrannana halda að verið sé að misþyrma börnunum.
Amma sendir knús og vonar að litla manneskjan fari nú að læra að njóta þess að fara í bað.
Þetta lagði Ragna amma í belginn
02.11.2008 23:29:48
Uss! Mínir hafa líka látið svona varðandi hárþvottinn (vissi ekki einu sinni af þessu deri..). Yngsti sonurinn hefur þó verið verstur - en bara ef það er mamman sem baðar. Heyrist ekki múkk hjá pabbanum! Óréttlæti heimsins ;)
Þetta lagði Rakel í belginn