mynd
 
Ragna Björk


Litla perlan okkar :)

Það hefur gengið ágætlega að fá Rögnu Björk til að sofna í nýja rúminu sínu. Það tók reyndar dágóða stund í gærkvöld og í dag tók hún engan blund, en hún var a.m.k. að dunda sér inni í herberginu með ljósin slökkt og kom ekkert fram í bæði skiptin svo að það er nú í rétta átt. Núna áðan dreif hún sig síðan sjálf inn í rúm þegar ég sagði henni að bangsinn hennar væri orðinn þreyttur og þyrfti að fara að sofa. Ég breiddi yfir hana, kyssti hana góða nótt og nú heyrist mér hún vera sofnuð. Alveg yndislega ljúf :)

Hún sló samt öll met í morgun í hugulseminni gagnvart foreldrunum. Ég rumskaði kl. hálfníu og fór að hugsa að Ragna Björk þyrfti kannski að fara bráðum að vakna svo að rútínan færi nú ekki öll úr skorðum. Þá fannst mér ég heyra einhver leikfangahljóð og velti fyrir mér hvort það gæti virkilega verið að hún væri vöknuð og farin að leika sér með dótið inni í herberginu sínu. Ég lufsaðist fram úr og kíkti fram, gekk á hljóðið og viti menn... mín kona sat bara róleg inni á stofugólfi og var að dunda með læknadótið sitt. Ég trúði varla eigin augum. Það var ekkert verið að koma askvaðandi inn til að vekja foreldrana, bara hljóðlega beint inn í stofu í rólegheitum. Ekki hef ég hugmynd um hvað hún hefði dundað sér þarna lengi ef ég hefði ekki rumskað af sjálfsdáðum.

Ég hafði grínast með það daginn áður að fyrst hún væri komin í rúm sem hún kæmist sjálf fram úr þá væri auðvitað um að gera að kenna henni á sjónvarpsfjarstýringarnar, setja Cheerios-skál á stofugólfið og við gætum bara sofið til hádegis! ;)

Ekki grunaði mig að dóttir mín tæki mig á orðinu...;)

Ragna Björk í nýja rúminu

Hér er Ragna Björk að narta í plastbanana í nýja rúminu sínu.


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
04.03.2009 11:05:22
Þetta rifjar upp þegar mamma hennar var lítil. Hún gat alltaf dundað sér og fann sér oftast bók þegar hún vaknaði og var ekkert að vekja mömmu með látum.
Stórt knús til ykkar allra.
Þetta lagði Amma Ragna í belginn
05.03.2009 21:25:19
Hún er nú meira krúttið:)
Vorum einmitt líka að kaupa stóru-stráka rúm fyrir Tómas Boga. Hann var nú eitthvað ekki sáttur við að litli bróðir ætti allt í einu rúmið hans og vildi bara að pabbi sinn setti vögguna saman aftur. En hann hefur alveg verið góður að fara að sofa í sínu nýja rúmi. Er held ég ekki enn búinn að fatta að hann getur sjálfur farið fram úr:)
Þetta lagði Ingunn í belginn