mynd
 
Ragna Björk


Naflaslitsaðgerð

Það var stór dagur hjá Rögnu Björk dugnaðarforki í dag. Hún hefur verið með lítið naflaslit síðan hún var örfárra vikna gömul og læknirnn hafði mælt með því að það fengi að jafna sig sjálft. Þar sem skvísan er nú orðin 2 ára gömul og naflaslitið enn af sömu stærð (hvorki minna né stærra) þá var ákveðið að gera aðgerð til að loka gatinu.

Hún átti bókað kl. 13:20 í aðgerðina og átti að fasta í 6 tíma áður. Ég kveið aðgerðinni sem slíkri ekkert sérstaklega enda um mjög smávægilega aðgerð að ræða - en ég hugsaði til þess með hryllingi hvernig ég ætti að dreifa huga litla matargatsins allan morguninn og fram til kl. 13:20...! Hún vaknaði klukkan 7 og mátti þá fá tvær litlar smáskyrsdósir og síðan ekki söguna meir. Fyrst vorum við mæðgur bara að dóla okkur heima að horfa sjónvarpið, lesa og leira en fórum svo til mömmu um tíuleytið og við fórum allar saman á bókasafnið og náttúrufræðisafnið í Kópavogi.

Ég dáðist að því hvað Ragna Björk var dugleg, en þrátt fyrir klukkutíma seinkun á aðgerðinni sem byrjaði ekki fyrr en kl. hálfþrjú, þá var litli engillinn ekkert að kvarta. Tvisvar um morguninn, meðan við vorum enn hérna heima þá vildi hún fá eitthvað að borða en það var hægt að dreifa huga hennar með nýjum bókum af bókamarkaðinum (sem geymdar höfðu verið fyrir þetta tilefni...! ;)). Síðan var hún bara ánægð og glöð og dundaði sér heilmikið á læknabiðstofunni í þennan rúma klukkutíma sem við biðum. Ég held m.a.s. að amman og mamman hafi verið orðnar mun svangari en litla skottan, og vorum við þó búnar að ná að lauma í okkur hvor sinni pylsunni meðan Ragna Björk dottaði á leiðinni yfir í Glæsibæ!

Aðgerðin heppnaðist vel og svo er saumataka í næstu viku. Amma Björk ætlar svo að passa litla strumpinn á morgun og á fimmtudaginn býst læknirinn við að hægt verði að fara á leikskólann aftur. Sjáum til hvernig gengur :)


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
25.03.2009 10:27:43
Þú varst svo góð og dugleg elsku nafna mín. Amma dáðist að því hvað þú tókst þessari löngu föstu fyrir aðgerðina með miklu æðruleysi. Nú er amma í Hveragerði og saknar þín mikið. Stórt knús fylgir sem ég bið mömmu að yfirfæra á þig.
Þetta lagði Amma Ragna í belginn
14.08.2010 13:31:20
Kannast við þetta
Ég kannast við þetta. Það er rosalega erfitt að láta svona lítil börn fasta fyrir aðgerð. Þegar Ásgeir fór í stóru aðgerðina sína átti hann að fasta frá miðnætti (en mátti fá vatn að drekka klukkan 3 um nóttina), aðgerðin átti að vera snemma um morguninn og vorum við mætt á spítalann klukkan 6, svo frestaðist aðgerðin endalaust og hann var orðinn þvílíkt svangur (enda skilur 8 mánaða gamalt barn ekkert í því að mega ekki fá að borða), klukkan 10 erum við enn að bíða og vitum ekkert afhverju aðgerðin hafði ekki hafist (það hafði eitthvað bráðatilfelli komið upp og enginn vissi hversu langan tíma það tók), og eftir að hafa talað við hjúkkurnar þá fékk ég loks samþykki um að mega gefa honum smá vatn að drekka, aðgerðin hófst svo klukkan 13 og það er slatti að mega ekki gefa ungabarni að borða í 13 klukkutíma. Ég man bara að mér fannst þessir tímar á milli 6-13 vera þvílíkt lengi að líða, þar sem þetta gerðist óvænt og enginn vissi neitt hvenær kæmi að honum. En gott að allt heppnaðist vel.

Þetta lagði Andrea í belginn