Á afmælisdaginn hans pabba, þann 14. ágúst 2007, fékk ég fyrsta grautinn minn. Það átti víst að bíða með herlegheitin þar til ég væri orðin 6 mánaða en ég er farin að vera svengri á kvöldin svo að ég fæ að byrja strax á grautnum þó ég sé enn aðeins 5 mánaða gömul. Held að mömmu og pabba þyki það ekkert leiðinlegt, þau voru a.m.k. svaka spennt að sjá hvernig ég myndi bregðast við. Pabbi var settur í að taka video og mamma sá um að moka upp í mig. Reyndar fæ ég nú voða lítið svona fyrst, bara 2-3 teskeiðar.
Fyrsti grauturinn var pínu misheppnaður því hann varð alltof þunnur og líktist því frekar súpu heldur en graut. En mér fannst þetta samt bara allt í lagi og kvartaði ekkert.
Daginn eftir var prófað aftur og nú var grauturinn eins og hann átti að vera, alveg hæfilega þykkur. Mér fannst það líka fínt og skildi eiginlega ekki af hverju þau hættu eftir nokkrar teskeiðar því ég hefði alveg getað borðað meira. En það á víst að byrja rólega svo að fyrst um sinn verð ég að láta þetta smáræði duga. Hlakka samt til þegar þau fara að skófla almennilega upp í mig! Kannski verð ég eins og pabbi minn var þegar hann var á mínum aldri, hann öskraði sko bara ef maturinn kom ekki nógu hratt upp í hann... ;)