mynd
 
Ragna Björk


Herbergis- og mjólkurmál

Það var stór stund hér í Betrabóli í gær, en Ragna Björk er nú búin að sofa sína fyrstu nótt í eigin herbergi. Talið er ágætt að setja börn í eigið herbergi milli 6 og 9 mánaða aldurs, þegar hægt er að koma því við, eða bíða annars þar til þau eru 15 til 16 mánaða gömul. Við tókum þá ákvörðun að færa hana í hennar eigið herbergi núna frekar en að bíða svo lengi. Okkur fannst það einnig góð hugmynd þar sem við mæðgur höfum verið að vekja hvora aðra að óþörfu, en við byltum okkur báðar frekar mikið í rúmi.

Þessi fyrsta nótt gekk mjög vel fyrir sig, stóra stelpan okkar sofnaði hálftólf og svaf til klukkan sjö í morgun án þess að þurfa nokkra þjónustu. Ef mamman hefði ekki verið með svona svakalega kinnholubólgu sem hélt fyrir henni vöku með reglulegu millibili þá hefði þetta verið stórfín nótt.

Sjáum hvort það gengur líka svona vel í nótt :)

 

Það eru líka fleiri breytingar í gangi, en verið er að reyna að venja Rögnu Björk af brjósti. Tekist hefur að fækka brjóstagjöfum niður í að vera aðeins á morgnana og á kvöldin (sem er stórt stökk því hún var komin í þann vana að drekka á 1-2 tíma fresti þegar hún var vakandi!) og þar sem hún er nú farin að borða graut og alls kyns krukkugóðgæti þá virðist hún vera að fá nóg.

Hins vegar hefur verið þrautin þyngri að koma ofan í hana stoðmjólkinni sem á nú að taka við af brjóstamjólkinni. Barnið sem alla tíð hefur þambað brjóstamjólk úr pela þegar mamma hennar hefur brugðið sér frá, hún þykist nú ekkert vita hvað eigi að gera við pelatúttuna og snýr sig næstum úr hálsliðnum þegar á að gefa henni með stútkönnu. Það hefur því engan veginn gengið að gefa henni stoðmjólkina nema einn og einn millilíter í senn. Reyndar tókst okkur að lauma 30-40 ml út í grautinn en meira má það ekki vera því þá verður grauturinn hálfþunnildislegur og daman fer að kvarta.

Í dag náði mamman þó einu stigi í þrjóskukeppninni um mjólkina, en ég náði að láta hana drekka 30 ml úr litlu meðalastaupi (10 ml í senn) og henni virtist bara alls ekki líka þetta illa. Svo virðist því sem hún telji sig of fullorðna fyrir stútkönnu- og pelastúss og vill bara drekka úr glasi. Venjuleg glasastærð er þó líklega helst til stór fyrir hana fyrst um sinn svo við höldum okkur við staupin í bili. Er nú búin að sækja nokkur staup inn í stofu, sem keypt voru fyrir árshátíð Klúbbsins og Assa hér um árið.

Já, það er stæll á minni, vill bara drekka úr staupi. Ætli daman heimti ekki síðan rauðvínsglösin þegar hún færir sig yfir í stærri glös? ;)

blogg29sept07.jpg


Leggja orð í belg
3 hafa lagt orð í belg
30.09.2007 19:00:17
Flott að hafa sér herbergi;)
Ég veit ekki hvort þú ætlir þér að hætta með hana alveg á brjósti eða bara minnka það! En ef þú ætlar bara að minnka það þá eru 3 gjafir á sólarhring nóg til að dekka alla mjólkurþörf barnsins;)

Tómas fór ekkert að fá neitt af viti þessa stoðmjólk fyrr en hann var alveg hættur á brjóstinu.
Þetta lagði Ingunn í belginn
30.09.2007 23:32:08
Ég þykist vita að hún er að velta þessari spurningu fyrir sér:
"Hvernig er það annars eiga ekki prinsessur að fá að ráða öllu?" Vonandi tekst nú að fá mína til þess að skilja að það er bara í ævintýrunum sem prinsessurnar setja sjálfar reglurnar en í dag eru það mamma og pabbi sem eiga að ráða.
Kysstu elsku þrjóskusnúlluna mína frá ömmu á Selfossi.
Þetta lagði Ragna í belginn
07.10.2007 09:38:30
Maður er sko orðin fullorðinslegur!!! Ótrúlega fljótt að líða :) Hlakka til að sjá ykkur mægður á morgunn
Þetta lagði Margrét Arna í belginn