mynd
 
Ragna Björk


Guðirnir á leikskólanum

Heyrt hef ég sögur af nemendum (og þá sérstaklega í allra yngstu bekkjum grunnskólans) sem standa í þeirri trú að kennarinn sé guð og orð hans séu lögmál (sem er auðvitað alveg hárrétt, a.m.k. að mínu mati ;) hahaha). Hins vegar vissi ég ekki að þetta syndróm teygði sig alla leið niður í 2 ára börn á leikskóla...

Ég hafði aldrei mátt fikta neitt í hárinu á dóttur minni og hvað þá að setja í það einhverjar greiðslur! Upp úr áramótum hef ég hins vegar oftast mátt setja í hana tíkó og var auðvitað himinlifandi yfir því, enda finnst mér hún ósköp krúttleg með tíkarspena :) Ég frétti svo að þetta væri víst "tíska" á deildinni hennar Rögnu Bjarkar og stelpurnar væru farnar að biðja um að hafa tíkó. Þar kom því líklega skýringin á því að ég mátti skyndilega fara að greiða barninu án þess að finnast ég vera að pynta hana.

Nú í vikunni voru birtar hópmyndir á heimasíðu leikskólans og ég sá að dóttir mín var þar með spennur í hárinu, en hafði ekki farið þannig að heiman. Mér fannst svaka gaman að sjá að hún hefði fengist til að vera með spennur (því hér heima hefur hún yfirleitt kvartað hástöfum ef ég kem með slíkt nálægt henni...) og var líka ánægð með þessa alúð sem kennararnir á deildinni væru að sýna krökkunum að greiða þeim og gera þau fín fyrir myndatökur :)

Í dag var leiðinni haldið í afmæli Daníels Snæs og Ragna Björk hafði ekki alveg þolinmæði í að láta setja í sig fallegt tíkó en fann ónotuðu spennurnar sínar í hárskrautspokanum og heimtaði skyndilega að fá að nota þær... Ég þakka leikskólakennurunum kærlega fyrir þennan part af uppeldinu - er strax farin að velta fyrir mér hvað ég geti fengið þær til að kenna Rögnu Björk næst... ;)

 

Uppfært 31. mars:

Í dag var daman m.a.s. með smá fasta fléttu á kollinum þegar pabbi hennar sótti hana á leikskólann. Ég dáist að þessum stórkostlegu kennurum á deildinni hennar, þær eru virkilega duglegar við að dúlla við krakkana :)


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
29.03.2009 11:39:56
Gaman að heyra þetta. Þetta minnir mig á þegar ég vildi aldrei borða brauð en fór svo í sumarbúðir þar sem þýddi ekki að vera með neitt múður og eftir það elskaði ég að fá heilhveitibrauð með osti. Já þeirra sem sjá um svona hluti uppeldisins er mátturinn og dýrðin.
Amma sendir stórt knús frá Hveragerði.
Þetta lagði Amma Ragna í belginn
31.03.2009 16:49:25
Merkileg þessi börn! Það er jú betra þegar þau sýna "taktana" heima;)!
Þetta lagði Rakel í belginn